Enski boltinn

Forsætisráðherra Breta segir landsliðstreyjuna of dýra

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Treyjurnar umræddu.
Treyjurnar umræddu.
David Cameron segir að íþróttavöruframleiðandinn Nike nýti sér þann mikla þrýsting sem börn setji á foreldra sína til að eignast nýjustu landsliðstreyju Englands.

Breski forsætisráðherran er ekki ánægður með að nýja treyjan, sem kynnt var í vikunni, kosti 90 pund - jafnvirði tæplega 17 þúsunda króna.

Áhuginn er vitanlega mikill í Englandi fyrir HM í Brasilíu í sumar og hvatti Cameron Nike til að endurskoða verðmiðann.

„Þetta virðist vera mjög dýrt. Ég á átta ára son sem er mikill fótboltaáhugamaður. Foreldrar eru undir miklum þrýstingi frá börnunum sínum að eignast nýjustu treyjuna og þær aðstæður ætti Nike ekki að færa sér í nyt.“

Helen Grant, íþróttamálaráðherra Breta, hefur áður sagt að treyjan sé of dýr en yfirvöld í Bretlandi viðurkenna þó að þetta sé mál sem enska knattspyrnusambandið og verslanir í Bretlandi verði að takast á við. Það sé ekki hlutverk ríkisvaldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×