Fótbolti

Tekur fram skóna með byssukúlubrot í höfðinu | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Salvador Cabanas hefur samið við neðrideildarlið í Brasilíu en hann hlaut lífshættulega áverka þegar hann var skotinn í höfuðið fyrir fjórum árum síðan.

Atvikið átti sér stað á bar í Mexíkóborg í janúar árið 2010 og er Cabanas enn með brot úr byssukúlunni í höfðinu. Cabanas var þá landsliðsmaður með Paragvæ og hefði að öllum líkindum spilað með liðinu á HM í Suður-Afríku árið 2010.

Hann tók reyndar fram skóna árið 2012 og spilaði þá með C-deildarliðinu 12 de Octubre í heimalandinu. Framherjinn náði þó ekki að skora í þeim fjórtán leikjum sem hann spilaði.

Cabanas fagnar marki í leik með America árið 2009.Vísir/Getty


Cabanas, sem er 33 ára gamall, samdi við Tanabi sem leikur í Sao Paulo héraði í Brasilíu. „Við viljum gefa honum tækifæri til að byrja upp á nýtt,“ sagði forseti félagsins.

Sjálfur segist Cabanas þess fullviss að hann muni blómstra hjá Tanabi. „Fótbolti er mitt líf. Ef ég hefði hann ekki hefði ég ekki hlotið þann bata ég hef fengið. Markmiðið er að skora mörg mörk,“ sagði Cabanas.

Hér fyrir neðan má sjá frétt ESPN um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×