Enski boltinn

Wenger ósáttur við lánafyrirkomulagið

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
vísir/getty
Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal vill að lánafyrirkomulagið í ensku knattspyrnunni verði endurskoðað eða lagt niður. Lið hans mætir Everton í dag sem er með marga öfluga lánsmenn innanborðs.

Lykilmenn Everton á borð við Romelu Lukaku, Gareth Barry og Gerard Deulofeu eru allir á láni hjá félaginu sem á í harðri baráttu við Arsenal um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

„Það væri betra ef leikmenn væru aðeins lánaðir í neðri deildirnar og til annarra landa, og ég er ekki viss um rétt sé að lána leikmenn á milli landa,“ sagði Arsene Wenger í aðdraganda leiksins í dag.

„Við verðum að leyfa leikmönnum að mæta liðunum sem lána þá, annars er ekki hægt að verja þetta kerfi,“ sagði Wenger en Lukaku fékk ekki að mæta Chelsea á leiktíðinni og Barry mátti ekki mæta Manchester City.

Leikur Everton og Arsenal hefst klukkan 12:30 og er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×