Innlent

Ölvaður karlmaður handtekinn í nótt

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/stefán
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti í nótt af karlmanni sem ekið hafði bifreið sinni á skilti. Þegar lögreglumenn komu á vettvang tók maðurinn á rás og hljóp að nærliggjandi bar þar sem hann var handtekinn.

Maðurinn lét ófriðlega, sýndi mótþróa við handtöku og var vistaður fangaklefa eftir að blóðsýni hafði verið fengið hjá honum. Karlmaðurinn var undir áhrifum áfengis- og kannabisefna.

Hann verður yfirheyrður þegar hann verður í ástandi til þess. Hann hafði áður  verið sviptur ökuréttindum.

Þá barst lögreglu tilkynning um ölvaða konu undir stýri á bíl sem stóð fyrir utan krá við Reykjavíkurveg.

Lögreglumenn voru skammt frá og voru þeir komnir á staðinn áður en konan ók af stað. Afhenti konan lögreglu lykla bifreiðarinnar og getur hún sótt þá þegar hún verður í ástandi til þess.

Hún mun ekki fá kæru því akstur var ekki hafinn þegar lögreglu bar að.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×