Enski boltinn

Fletcher: Tímabilið vonbrigði en Mata verið frábær

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Darren Fletcher, leikmaður Manchester United, lítur á kaup félagsins á spænska miðjumanninum Juan Mata sem ljósa punktinn á annars döpru tímabili á Old Trafford.

Englandsmeistararnir unnu Newcastle 4-0 á útivelli um helgina þar sem Mata fór á kostum en Spánverjinn skoraði tvö mörk og lagði upp eitt fyrir Adnan Januzaj.

„Þetta tímabil er búið að vera vonbrigði en Mata er búinn að vera frábær,“ segir Fletcher í viðtali við Daily Star.

„Juan er klassísk tía. Hann stýrir leikjum og hefur auga fyrir úrslitasendingum. Hann getur líka hægt á leiknum með tveimur til þremur snertingum.“

„Þegar hann er ekki með boltann er hann alltaf til staðar þrátt fyrir að hann sé ekkert að tækla menn. Hann les bara leikinn svo vel,“ segir Fletcher.

Spánverjinn má ekki spila í Meistaradeildinni á miðvikudaginn þegar United sækir Evrópumeistara Bayern München heim en Englandsmeistararnir verða að skora mörk á Allianz-vellinum ætli liðið sér áfram.

„Það er algjör synd að hann geti ekki verið með en það er eitthvað sem við vissum af,“ segir Darren Fletcher.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×