Innlent

Þriðjungur af öllu gistirými í einkaherbergjum

Eftir hrun og með tilkomu vefja eins og Airbnb.com, hafa æ fleiri íbúðaeigendur farið að leigja út húsnæði til ferðamanna. Um 180 manns eru með leyfi fyrir slíkri heimagistingu í Reykjavík í dag en vel yfir 900 íbúðir og herbergi standa ferðamönnum til boða á Airbnb. Talan endurspeglar þó ekki fjöldann í raun, því eitthvað er um endurtekningar þar sem fólk er ýmist að leigja út íbúð í heilu lagi eða herbergi innan íbúðar.

Um 3000 hótelherbergi eru í Reykjavík en Kristófer Óliversson, eigandi Center hótelanna, telur að um 1500 gistiherbergi séu í einkaíbúðum. Sum sé þriðjungurinn af öllu gistirými í Reykjavík.

Fólk sem leigir út einkahúsnæði getur valið að leigja ferðamönnum í 8 nætur eða lengur og þarf þá engin leyfi en greiðir fjármagnstekjuskatt af leigunni eins og aðrir leigusalar. Þeir sem vilja geta leigt ferðamönnum í skemmri tíma þurfa hins vegar bæði rekstarleyfi frá lögreglu og starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti á viðkomandi stað. Þetta virðist hafa staðið í allmörgum, og því ætla menn að drjúgur hluti af gistirými á einkaheimilum sé á svarta markaðnum.

Stóru málin rýna í þetta mál í kvöld og ræddu meðal annars við Bjarna Kjartansson, sviðsstjóra hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, sem segir ýmsum fallast hendur þegar þeir heyra hvaða eldvarnarkröfur eru gerðar til þeirra sem leigja ferðamönnum gistingu í 7 nætur eða skemur.

Stóru málin eru á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld kl.19:20. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra situr fyrir svörum. Þátturinn er í opinni dagskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×