Enski boltinn

Rodgers elskar pressuna sem fylgir toppbaráttunni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Brendan Rodgers er við það að gera Liverpool að meisturum.
Brendan Rodgers er við það að gera Liverpool að meisturum. Vísir/Getty
Bið Liverpool eftir 19. Englandsmeistaratitilinum gæti lokið í maí en liðið er í bullandi toppbaráttu og í góðum málum á toppi deildarinnar þegar lítið er eftir af mótinu.

Nokkrar hindrarnir eru þó eftir eins og leikurinn gegn Manchester City um næstu helgi. Það fylgir því alltaf pressa að þjálfa Liverpool og ekki minnkar hún þegar Englandsmeistaratitill er handan við hornið.

„Ég nýt hverrar mínútu. Þetta er algjör snilld. Ég hef ekki verið í þessari stöðu áður en ég hef verið í fótboltanum lengi,“ segir BrendanRodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, í viðtali við Daily Star.

„Þetta er fimmta árið mitt sem knattspyrnustjóri en ég hef staðið á hliðarlínunni og þjálfað í 20 ár. Ég hef virkilega gaman af því að sjá hvernig liðið er að þróast,“ segir Rodgers sem hefur engar áhyggjur af pressunni.

„Þegar maður spilar eða starfar fyrir félag eins og Liverpool er pressa hluti af þínu daglega lífi. Ég geng framhjá Evrópubikarnum á hverjum degi þegar ég mæti á æfingasvæðið. Það eitt getur verið pressa en bara ef þú lætur það hafa áhrif á þig.“

„Við höfum unnið hörðum höndum allt tímabilið fyrir því að vera í þessari stöðu. Nú erum við á toppnum og höldum áfram að leggja hart að okkur,“ segir Brendan Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×