Innlent

Félag flugmálastarfsmanna boða til verkfallsaðgerða

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/pjetur
Félag flugmálastarfsmanna hefur samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða félagsmanna að boða til verkfallsaðgerða gegn Isavia. á flugvöllum landsins á næstunni, takist kjarasamningar ekki á næstu dögum.

424 voru á kjörskrá. 88% sögðu já, 9% sögðu nei og 3% skiluðu auðu.

Aðgerðir munu hefjast þann 8. apríl, í fimm klukkustundir. Náist samningar ekki verður annað verkfall þann 23.apríl í jafnlangan tíma og boðað verður til allsherjar verkfalls þann 30.apríl hafi samningar enn ekki tekist.

Atkvæðagreiðsla hófst síðastliðinn fimmtudag, þann 27.mars og lauk henni rétt fyrir hádegisbil í dag.

Félagsmenn Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR), Stéttarfélags í almannaþjónustu (SFR) og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna(LSS) hafa lengi krafist þess að Isavia og Samtök atvinnulífsins komi að samningaborðinu með þann ásetning að semja um leiðréttingar og breytingar á skipulagi og vinnuumhverfi félagsmanna.

Málinu var vísað til ríkissáttasemjara í lok febrúarmánaðar.

Félegsmönnum bárust fréttir af því í síðustu viku að til þess að vinna frekar á þeim samningsgrunni yrði sett það skilyrði að samningurinn yrði lengdur verulega, eða um 7 mánuði, sem þýddi að samningstíminn væri þá orðinn 19 mánuðir. Þetta skilyrði þótti óásættanlegt að mati samninganefnda félagana og því var boðað til allsherjar atkvæðagreiðslu hjá Isavia um boðun aðgerða.

Verkfallsaðgerðir munu raska flugi um allt land þá daga sem þær standa yfir, bæði innanlands- og millilandaflugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×