Innlent

Kusu fjóra nýja frisbígolfvelli

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Reykvíkingar völdu 78 verkefni í kosningunni um betri hverfi í borginni. 300 milljónum verður varið í að koma hugmyndum borgarbúa í framkvæmd og stendur til að reisa fjóra frisbígolfvelli.

Þetta er í þriðja sinn sem Reykjavíkurborg stendur fyrir kosningunni um Betri hverfi í Reykjavík. Í lok árs verður búið að verja í heild um 900 milljónum króna í verkefnið. Íbúar Reykjavíkur kjósa um hugmyndir sem þeir hafa sjálfir lagt fram á vef verkefnisins og er kosningin bindandi fyrir Reykjavíkurborg.

„Ég hugsa að fólk sé mjög ánægt með að hafa sitt að segja um hvernig hverfi þeirra lítur út,“ segir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar.

Yfir 400 hugmyndir bárust í ár og er 300 milljónum skipt á milli 10 hverfa eftir íbúafjölda. Reisa á frisbígolfvöll í fjórum hverfum. Stærsta framkvæmdin sem farið verður í á þessu ári er ævintýrasvæði með klifursamstæðu við Gufunesbæ sem kostar um 16 milljónir króna.

„Fólki er umhugað um útivistarsvæðin sín. Íbúar í Hlíðunum hafa með sínum hugmyndum gert Klambratún mjög skemmtilegt. Gufunessvæðið er að verða mjög fínt og margar hugmyndir því tengdu verið kosnar á undanförnum árum,“ segir Bjarni.

Hann telur að verkefnið Betri hverfi hafi gefist mjög en vel en óljóst sé hvort það haldi áfram á nýju kjörtímabili. „Borgin hefur verið að taka stakkaskiptum með þessum verkefnum. Íbúarnir vita best sjálfir hvar peningunum er best varið og eiga að fá að ákveða það áfram að mínu mati,“ segir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×