Innlent

Gíslataka í Hlíðarhjalla

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi í dag.
Frá vettvangi í dag. Vísir/Vilhelm
Fjölmennt lið lögreglu var kallað að fjölbýlishúsi í Hlíðarhjalla í Kópavogi á tíunda tímanum í morgun. Einn maður var handtekinn en hann á að hafa haldið öðrum manni í gíslingu yfir nóttina vopnaður exi og hnífi.

Fjórir lögreglubílar voru sendir á vettvang auk rannsóknarlögreglunnar. Samkvæmt heimildum Vísis snýst málið um ósætti milli leigusala og leigjanda. Sá fyrrnefndi hafi viljað losna við leigjanda sinn sem hafi tekið það óstinnt upp.

Hélt hann því leigusalanum nauðugum yfir nóttina þar til hann sofnaði undir morgun. Var þá haft samband við lögreglu sem mætti á vettvang, vakti leigjandann og leiddi út í handjárnum.

Auk þess var kornsnákur fjarlægður af vettvangi. Sá var í eigu leigjandans.

Leigjandinn er í haldi lögreglu og framundan eru skýrslutökur yfir báðum mönnunum að því er Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti í samtali við Vísi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.