Enski boltinn

Kasper Schmeichel fær markið ekki skráð á sig

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kasper Schmeichel horfir á eftir boltanum gegn Yeovil í gærkvöldi.
Kasper Schmeichel horfir á eftir boltanum gegn Yeovil í gærkvöldi. Vísir/getty
Danski markvörðurinn KasperSchmeichel er ekki kominn í sama flokk og faðir sinn, PeterSchmeichel, yfir markverði sem hafa skorað í deildarleik.

Daninn ungi hélt sig hafa skorað jöfnunarmark Leicester gegn Yeovil í gærkvöldi þegar hann stangaði boltann í slána og inn í uppbótartíma í leik í ensku B-deildinni.

Boltinn fór af sláni og í grasið og virtist augljóslega vera kominn allur yfir línuna. Hann skoppaði síðan út úr markinu og til liðsfélaga hans, Chris Woods, sem kom boltanum endanlega alla leið í netið.

Nú hafa forráðamenn ensku deildakeppninnar úrskurðað að Woods fær markið skráð á sig enda var ekkert dæmt þegar boltinn fór yfir línuna hjá Schmeichel, að því fram kemur á vef BBC.

Afskaplega leiðinlegt fyrir strákinn sem þarf að bíða eitthvað lengur með að skora eins og pabbi sinn. Peter Schmeichel skoraði í heildina níu mörk á ferlinum.

Úrslitin eru þó aðalatriðið fyrir Leicester sem er á toppnum í B-deildinni, 13 stigum á undan Derby sem er í þriðja sæti deildarinnar. Refirnir snúa því væntanlega aftur í úrvalsdeildina næsta vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×