Enski boltinn

Loksins deildarsigur á Old Trafford - Rooney með tvö fyrir United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney skoraði tvö mörk og Juan Mata skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið í dag þegar Manchester United vann 4-1 sigur á Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í hádegisleiknum.

Manchester United var aðeins búið að ná í eitt stig út úr síðustu þremur deildarleikjum sínum á Old Trafford og þetta leit ekki alltof vel út þegar United-menn lentu undir í dag.

Wayne Rooney snéri hinsvegar leiknum við með tveimur mörkum fyrir hlé.  Rooney hefur þar með skorað 15 deildarmörk á leiktíðinni.

Þetta byrjaði eins og áður sagði ekki vel fyrir Manchester United liðið því Ashley Westwood kom Aston Villa í 1-0 með marki beint úr aukaspyrnu á 13. mínútu.

Wayne Rooney jafnaði fyrir United með skalla á 20. mínútu eftir fyrirgjöf Shinji Kagawa og kom United síðan í 2-1 með mark úr vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiksins.

Juan Mata fiskaði vítið og hann skoraði síðan langþráð mark fyrir United þegar hann kom liðinu í 3-1 á 57. mínútu. Boltinn barst þá til hans frá Marouane Fellaini og Spánverjinn skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið.

Manchester United var með örugg tök á leiknum eftir það. Rooney fékk tækifæri til að ná þrennunni en það var hinsvegar varamaður Rooney, Javier Hernandez, sem innsiglaði sigurinn í uppbótartíma eftir fyrirgjöf Adnan Januzaj.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×