Erlent

Kanadíska fjarskiptastofnunin vill meira af innlendu klámi

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Reglur kveða á um að kanadískt efni skuli vera að lágmarki 35 prósent þess sjónvarpsefnis sem sent er út.
Reglur kveða á um að kanadískt efni skuli vera að lágmarki 35 prósent þess sjónvarpsefnis sem sent er út. vísir/getty
Kanadíska fjarskiptastofnunin sakar þrjár erótískar sjónvarpsstöðvar í Toronto um að fylgja ekki reglugerð um lágmarkshlutfall innlends efnis. Í kjölfarið gæti farið svo að stöðvarnar fái ekki endurnýjun á útsendingarleyfi.

Reglur kveða á um að kanadískt efni skuli vera að lágmarki 35 prósent þess sjónvarpsefnis sem sent er út. Þar sem stöðvarnar senda út allan sólarhringinn jafngildir það um átta og hálfri klukkustund kanadísks efnis.

Stöðvarnar sem um ræðir eru AOV Movie Channel, XXX Action Clips og Maleflixxx, en sú síðastnefnda sérhæfir sig í erótísku efni fyrir samkynhneigða karlmenn. Stöðvarnar eru allar í eigu Channel Zero.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fjarskiptastofnunin ávítar stöðvarnar en árið 2012 voru þær nokkrum mínútum undir lágmarkshlutfallinu. Sögðu forsvarsmenn stöðvanna þá að um mistök hefði verið að ræða af þeirra hálfu og lofuðu þeir bót og betrun.

Þá telur fjarskiptastofnunin einnig að reglum um texta fyrir heyrnarskerta hafi ekki verið fylgt. Málið verður tekið fyrir nefnd þann 28. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×