Enski boltinn

Liverpool valtaði yfir Man. Utd á Old Trafford

Gerrard fagnar með félögum sínum í dag.
Gerrard fagnar með félögum sínum í dag.
Liverpool vann frækinn sigur, 0-3, á Man. Utd á Old Trafford í dag. Sanngjarn sigur og það endanlega staðfest að Liverpool er með betra lið en Man. Utd í dag. Liverpool er enn í titilbaráttu. Komið í annað sætið og er aðeins fjórum stigum á eftir Chelsea og á leik til góða.

Það var fast tekist á strax frá upphafi. Rafael, leikmaður Man. Utd, átti hörðustu tæklinguna er hann negldi Steven Gerrard niður. Fékk hann gult spjald fyrir það.

Skömmu síðar var dæmd vítaspyrna á Rafael er hann handlék boltann innan teigs. Liverpool-menn vildu annað gult á Rafael og þar með rautt en fengu aðeins vítið hjá Clattenburg dómara.

Spyrnuna tók Gerrard og hann skoraði af miklu öryggi úr spyrnunni. Síðari hálfleikur var nyhafinn er Liverpool fékk aðra vítaspyrnu.

Phil Jones keyrði þá í bakið á Joe Allen og vítaspyrna réttilega dæmd. Aftur steig Gerrard á punktinn og aftur skoraði hann örugglega.

Sögulegt mark hjá Gerrard en hann hefur skorað flest mörk allra aðkomuliða á Old Trafford í úrvalsdeildinni.

Vítaspyrnuveislunni var ekki lokið því Daniel Sturridge fiskaði víti stundarfjórðungi fyrir leikslok. Hann fiskaði ekki bara víti því Nemanja Vidic fékk einnig að líta rauða spjaldið og var eðlilega allt annað en sáttur við það. Þetta var í fjórða skiptið sem Vidic fær rautt gegn Liverpool.

Gerrard gat skorað þrennu frá punktinum en skot hans fór í stöngina. Þetta var aðeins í þriðja skiptið í sögu enska boltans sem sama liðið fær dæmt á sig þrjú víti í leik.

Sturridge átti að fá réttmætt víti nokkrum mínútum síðar en Clattenburg var ekki í stuði til þess að flauta fjórða vítið á heimamenn.

Luis Suarez komst í dauðafæri skömmu síðar en David de Gea varði stórkostlega. Hann kom þó engum vörnum við aðeins tveim mínútum síðar er Suarez komst aftur í dauðafæri og rúllaði boltanum í fjærhornið.

Suarez búinn að skora 25 mörk í vetur og hann er fyrsti leikmaður Liverpool sem nær því síðan Robbie Fowler náði þeim markafjölda fyrir ansi mörgum árum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×