Enski boltinn

Vincent Tan útskýrir sólgleraugun og hanskana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vincent Tan, eigandi Cardiff City.
Vincent Tan, eigandi Cardiff City. Vísir/Getty
Vincent Tan, hinn umdeildi malaíski eigandi Íslendingaliðsins Cardiff City, er í viðtali á BBC í dag sem er fyrsta viðtalið sem hann hefur síðan að hann rak knattspyrnustjórann Malky Mackay. Tan telur sig ekki fá alveg sanngjarna meðferð í breskum fjölmiðlum og segist ekki vera vondur maður.

„Einn daginn ertu hetja en þann næsta breytist þú í skúrk," sagði hinn 62 ára gamli Vincent Tan sem keypti Cardiff City í maí 2010. „Án mín þá hefði Cardiff farið á hausinn en í staðinn komst liðið upp í ensku úrvalsdeildina vegna minnar fjárfestingar," sagði Vincent Tan.

„Ég er farinn að skipta mér meira af og ég trúi því að félagið verði í góðum málum undir minni forystu," sagði Tan en Cardiff situr í fallsæti þegar aðeins ellefu leikir eru eftir.

„Sumir fjölskyldumeðlimir mínir vilja að ég fari og telja að þetta sé ekki þess virði. Þeir segja að fólk sé vanþakklátt. Maður verður samt að sýna þolinmæði, sætta sig við gagnrýnina og stundum jafnvel móðganir," sagði Tan.

Tan vonast til að geta sagt stuðningsfólki Cardiff seinna sannleikann um af hverju hann rak Mackay en það geti ekki gerst á meðan mál milli félagsins og skoska stjórans er enn í réttarkerfinu. Tan segir það hinsvegar hafa verið mistök að ráða Malky Mackay á sínum tíma.

Tan hefur vakið athygli fyrir sérstakan klæðnað í stúkunni en hann er alltaf með hanska og sólgleraugu.  „Ég er með sólgleraugun til að verja mig fyrir bjarmanum frá flóðljósunum og ég er með hanskana af því að það er kalt í Bretlandi. Stundum held að fólk sé búið að missa vitið þegar það er að gera athugasemdir við þetta," útskýrir Tan.

Það má sjá allt viðtalið með því að smella hér.

Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×