Enski boltinn

Hazard: City líklegra til að vinna titilinn

Eden Hazard er að spila frábærlega um þessar mundir.
Eden Hazard er að spila frábærlega um þessar mundir. Mynd/Getty
Eden Hazard, leikmaður Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, segir Manchester City betur í stakk búið til að vinna Englandsmeistaratitilinn á þessu tímabili.

Belginn fór á kostum í 3-0 sigri Chelsea á Newcastle um helgina og skoraði öll þrjú mörkin en stigin þrjú komu liðinu á toppinn í úrvalsdeildinni.

Hazard vonast til að Chelsea geti haldið toppsætinu en segir strákana hans Manuels Pellegrini líklegri til að verða meistara miðað við það vopnabúr sem liðið hefur yfir að ráða.

„Við erum ekki eins vel vopnaðir City - meira að segja þó við höfum unnið það á útivelli. Arsenal tapaði stórt fyrir Liverpool en það er samt frábært lið þannig við sjáum hvernig þetta fer,“ segir Hazard.

„Það er ekki mikill munur á liðunum þannig það verða smáatriðin sem skipta máli. Besta liðið mun vinna deildina á endanum.“

Hazard var einnig mjög góður í sigri Chelsea gegn City á Etihad-vellinum á dögunum og hann vonast til að halda áfram að spila svona vel.

„Mér gengur vel þessa dagana. Mér líður vel í hverjum leik með þessum strákum í liðinu. Það gengur allt eins og í sögu núna. Mér líður vel í lífinu, fótboltanum og hjá þessu félagin. Ég er í góðu standi líka þannig vonandi heldur þetta bara áfram svona,“ segir Eden Hazard.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×