Enski boltinn

Wenger vill að Özil skori fleiri mörk

Mesut Özil leitar alltaf að bestu sendingunni í stað þess að skjóta.
Mesut Özil leitar alltaf að bestu sendingunni í stað þess að skjóta. Vísir/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, vill að 40 milljóna punda maðurinn Mesut Özil skori fleiri mörk fyrir liðið.

Özil, sem hefur verið nokkuð gagnrýndur fyrir frammistöðu sína að undanförnu, er búinn að skora fimm mörk fyrir Arsenal síðan hann gekk í raðir liðsins frá Real Madrid síðasta sumar.

Hann er búinn að gefa tíu stoðsendingar en Wenger vill sjá Þjóðverjann koma boltanum oftar í netið. Því miður gefst bara svo lítill tími til að fara yfir hlutina á æfingum nú til dags.

„Maður vill að sá sem spilar fyrir aftan framherjann skori einhver mörk. Stundum hugsar sá leikmaður of mikið um að gefa fullkomna sendingu þegar hann á að skjóta sjálfur,“ segir Wenger við heimasíðu Arsenal.

„Þetta mun lagast með æfingum og þegar við komum honum í fleiri stöður þar sem Özil getur skotið. Þá mun hann skora meira.“

„Vandamálið er að við æfum lítið þessa dagana því við eigum leik á þriggja daga fresti. Við gátum alltaf undirbúið okkur saman fyrir leiki hér áður fyrr en vandamálið nú til dags er að það er ekki hægt að æfa.“

„Á meðan tímabilið er í gangi spilum við á þriggja daga fresti. Svo eftir það er HM. Þegar menn koma til baka eftir HM er bara ein vika í fyrsta leik. Það gefst aldrei tími til að fara yfir málin á æfingasvæðinu,“ segir Arsene Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×