Innlent

Lögin muni flækja ráðningarferli

Elimar Hauksson skrifar
Eygló Harðardóttir er félags- og húsnæðismálaráðherra. Hún er í forsvari fyrir Velferðarráðuneytið ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni, heilbrigðisráðherra.
Eygló Harðardóttir er félags- og húsnæðismálaráðherra. Hún er í forsvari fyrir Velferðarráðuneytið ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni, heilbrigðisráðherra.
Kolbeinn Pálsson, hjá ráðningafyrirtækinu Job.is, segir að fyrirhuguð lög um jafna meðferð á vinnumarkaði muni flækja ráðningarferli og gera vinnuveitendum erfitt fyrir í leit að rétta starfsfólkinu. Þá muni ráðningarfyrirtæki eiga í erfiðleikum með að finna þá starfsmenn sem fyrirtæki leita eftir.

Kolbeinn lýsti þessari skoðun sinni á frumvarpi Velferðarráðuneytisins í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Hann segir hugmyndina á bakvið lögin góða en spurningin sé hinsvegar hvernig best sé að framkvæma hana. Erfitt geti verið að framfylgja slíkum reglum þar sem fyrirtæki leiti eftir hæfustu starfsmönnum í viðkomandi starf með tvennt í huga. Annars vegar að afla fyrirtækjum sínum eins mikilla tekna eins og hægt er og  hins vegar að hafa tilkostnað sem lægstan.

Kolbeinn segist mest kvíða fyrir því að sú aðstaða komi upp að umsækjandi sem telji brotið á sér muni setja fram kæru og geti slíkt átt sér langa málsmeðferð þrátt fyrir að ef til vill sé bara um tilfinningu umsækjandans að ræða sem eigi ef til vill ekkert skylt við starfsgetuna.

Nýju lögunum er ætlað að tryggja að vinnuveitendur geti ekki mismunað umsækjendum um starf eftir aldri, lífsskoðunum, skertri starfsgetu og fleiru.

Lögin gera einnig ráð fyrir því að óheimilt verði að krefja starfsfólk um að halda trúnaði um launakjör sín og mega starfsmenn því tjá sig um launakjör sín að vild. Velferðarráðuneytið auglýsir nú eftir umsögnum um lögin, en umsagnarfrestur rennur út þann 28. febrúar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×