Enski boltinn

„Ég veit að verðmiðinn er hár“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mata ásamt David Moyes, knattspyrnustjóra Manchester United.
Mata ásamt David Moyes, knattspyrnustjóra Manchester United. Mynd/Twittersíða United

Spánverjinn Juan Mata skrifaði í kvöld undir samning við Englandsmeistara Manchester United. Hann er dýrasti leikmaður í sögu félagsins.

„Þetta er stór dagur fyrir mig. Þetta er afar merkilegt félag og ég er stoltur að vera kominn hingað,“ sagði Mata í sínu fyrsta viðtali við sjónvarpsstöð Manchester United. Mata er 25 ára og hefur leikið 32 landsleiki fyrir Spánverja. Hann getur spilað með United gegn Cardiff í deildinni í vikunni en hann getur þó ekki leikið með liðinu í Meistaradeildinni þar sem hann hefur þegar spilað með Chelsea í þeirri keppni.

Mata sagðist hafa verið upp með sér að heyra af áhuga félagsins á sér.

„Ég hugsaði bara vá! Þetta er lið sem hefur unnið marga bikara á Englandi og það er stórkostlegt að heyra að félag eins og Manchester United hafi áhuga á þér,“ sagði Mata sem kostar United 37,1 milljón punda. Félagið hefur aldrei greitt hærri upphæð fyrir leikmann.

„Ég veit að verðmiðinn er hár en ég hef sjálfstraustið. Ég mun gera mitt besta og tel að allt fari vel enda góðir leikmenn, þjálfari og stórkostlegir stuðningsmenn.“

Juan Mata skrifaði stuðningsmönnum Chelsea bréf og þakkaði þeim fyrir árin á Stamford Bridge. Bréfið má lesa hér.

„Ég er þakklátur Chelsea, eigandanum og starfsmönnum en sérstaklega stuðningsmönnum sem hafa kosið mig þann besta síðastliðin tvö ár. Síðustu sex mánuðir hafa verið erfiðir því ég hef ekki spilað jafnmikið og ég vil,“ sagði Mata. Spánverjinn sagðist þó skilja að fótbolti væri liðsíþrótt og því hefði hann borið virðingu fyrir ákvörðun stjóra Chelsea, Jose Mourinho.

Mata og David de Gea, markverði United, er vel til vina.

„Hann hefur sent mér sms síðustu fimm til sex daga og spurt hvenær ég komi og hvort ég kæmi með þyrlu eða á reiðhjóli. Hann var mikilvægur þáttur í að ég ákvað að koma hingað.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.