Innlent

„Ég væri ekki á lífi ef það væri ekki fyrir kannabis“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
„Ég væri ekki á lífi ef það væri ekki fyrir kannabis. Ég er sönnun þess að fólk getur reykt kannabis en samt verið aktíft,“ segir Pétur Kristján Guðmundsson, kvikmyndagerðamaður sem lamaðist í slysi í Austurríki fyrir rúmlega þremur árum síðan.

Pétur vakti athygli á því að hann reykir kannabis til þess að lina þjáningar sínar í þættinum Sjálfstæðu fólki á Stöð 2 í gær. Pétur þjáist af krónískum verkjum í kjölfar slyssins sem hann lenti í og segir verkjalyfin sem hann fær uppáskrifuð frá læknum ekki duga jafn vel og kannabis.

„Þegar ég reyki kannabis fara verkirnir yfirleitt samstundis. Pillurnar virka misvel og ef þær virka þá tekur það langan tíma. Verkjapillurnar sem ég fæ uppáskrifaðar eru líka ofboðslega ávanabindnandi. Líkaminn er rosalega fljótur að byggja upp þol gagnvart þeim og maður þarf sífellt að stækka skammtana,“ segir Pétur.

Pétur hefur sagt frá því að hann ætli sér að ganga. Hér sést hann standa á sérhönnuðum spelkum.
Honum finnst fáránlegt að vera titlaður, samkvæmt lagaskilgreiningu, sem eiturlyfjafaneytandi. „Það er búið að heilaþvo okkur þegar kemur að kannabisreykingum. Fólk tengir kannabis oft við leti, að þeir sem reyki verði að sófadýrum. Í mínu tilviki er þetta algjörlega öfugt. Ef ég hefði ekki kannabis þá væri ég fastur í sófanum vegna verkjanna, þá væri myndin sem ég var að klára jafnvel ekki til. Allavega miklu styttri. Á meðan ég gerði myndina þurfti ég gjarnan að reykja daglega, til að lina verkina svo ég gæti haldið áfram vinnu minni.“

Pétur nefnir sérstaklega tvö verkjalyf sem hann hefur fengið uppáskrifuð, sem séu skaðleg. „Ég var á lyrica en hætti og tek stundum oxicontin við verkjum. Ef kannabisið virkar ekki á verkina tek ég oxicontin og stundum virkar það. En ég þarf að passa það sérstakelga að taka ekki mikið af oxicontin, því það tekur líkamann stuttan tíma að byggja upp þol gagnvart lyfinu og fólk verður auðveldlega háð því. Þessi lyf eru bæði skaðleg og það er mikill vandi í kringum misnotkun á þeim víða um heim.“

Hann vill þó taka fram að hann er algjörlega á móti því að unglingar reyki kannabis. „Ef ungt fólk reykir, þá getur það leitt til varanlegrar skerðingar á þroska. Alveg eins og með alla aðra vímugjafa – ungt fólk á að láta þetta í friði. En það eru dæmi um að kannabis bjargi fólki, til dæmis var ungri stúlku í Colorado bjargað með því að gefa henni efni unnin úr Kannabis,“ útskýrir Pétur.*

Pétur vinnur nú að því að koma heimildamynd sinni, sem ber titilinn Heild, í kvikmyndahús. Í desember sagði Vísir frá því að Pétur hafði lokið við myndina. Pétur vann myndina nánast alla á eigin spýtur og ætlar að nota ágóðann sem hlýst af myndinni í tilraunir á sjálfum sér í þágu framþróunnar á úrræðum fyrir lamaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×