Erlent

Smekkvísir þjófar stöðvaðir af lögreglu

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Stólar Arne Jacobsen þykja fallegir en þeir kosta sitt.
Stólar Arne Jacobsen þykja fallegir en þeir kosta sitt. Mynd/Ekstrabladet
Tveir danskir innbrotsþjófar nýttu sér fasteignaauglýsingar á netinu til þess að sigta út dýrar eignir með það í huga að stela rándýru innbúi íbúanna.

Lögreglan hafði hendur í hári þjófanna en þegar þeir voru handteknir hafði annar þeirra í fórum sínum lista með 31 heimilisfangi víðs vegar um Sjáland. Þar höfðu þjófarnir punktað niður öllu því sem átti að stela.

Réttarhöldin yfir mönnunum tveimur hófust í Lyngby í gær en þeir eru ákærðir fyrir skipulagða glæpastarfsemi. Tókst þeim að brjótast inn í fimm einbýlishús og stela húsgögnum að andvirði um 11,3 milljónum íslenskra króna, þar á meðal fjölda stóla eftir danska hönnuðinn Arne Jacobsen, sófa eftir Poul Kjærholm og PH loftljós, svo eitthvað sé nefnt.

Þjófarnir neita sök en dómur í málinu fellur hinn 29. janúar.

Danska lögreglan hvetur fólk til þess að hugsa sig tvisvar um áður en myndir af innbúinu eru birtar á veraldarvefnum en þetta er ekki í fyrsta skipti sem lögreglan þar í landi stöðvar innbrotahrynur sem þessar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×