Enski boltinn

Aspas opnaði markareikning sinn í sigri

Mynd/NordicPhotos/Getty
Iago Aspas opnaði markareikning sinn fyrir Liverpool í 2-0 sigri á Oldham í þriðju umferð enska bikarsins í dag. Aspas skoraði þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og var óheppinn að bæta ekki við stuttu seinna þegar skalli hans hafnaði í stönginni.

Liverpool sótti lengst af í leiknum en eftir að Liverpool missti Daniel Agger meiddan af velli þegar tíu mínútur voru til leiksloka kom pressa á liðið að klára leikinn eftir að liðið hafði notað allar þrjár skiptingarnar sínar.

Það tók Liverpool hinsvegar aðeins tvær mínútur að gera út um leikinn, James Tarkowski skoraði þá sjálfsmark þegar hann stýrði skoti Raheem Sterling í netið. Sonur Brendan Rodgers, knattspyrnustjóra Liverpool fékk að spila síðustu fimm mínútur leiksins í liði Oldham en náði ekki að stríða lærisveinum föður síns og lauk leiknum með 2-0 sigri heimamanna. Þeir bíða nú eftir seinni leik Bournemouth og Burton eftir fregnum hvoru liðinu þeir mæta í fjórðu umferð enska bikarsins.

Þá náði Plymouth að snúa taflinu við á útivelli gegn Port Vale í leik sem hófst á sama tíma. Port Vale náði tveggja marka forskoti skömmu fyrir hálfleikinn en gestirnir náðu að jafna metin um miðbik seinni hálfleiksins og tryggðu sér annan leik á Home Park. Það lið sem nær að sigra seinni leikinn tekur á móti Brighton í fjórðu umferð á heimavelli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×