Enski boltinn

Arteta: Alonso ætti að geta valið úr liðum á Englandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xabi Alonso.
Xabi Alonso. Mynd/AFP
Mikel Arteta, spænski miðjumaðurinn hjá Arsenal, er ekki vafa um annað en að landi hans Xabi Alonso gæti valið úr tilboðum frá enskum liðum ákveði hann að yfirgefa Real Madrid í sumar.

Xabi Alonso er 32 ára gamall en samningur hans og Real Madrid rennur út í sumar og það bendir ekkert til þess að nýr samningur sé í burðarliðnum.

Xabi Alonso hefur spilað með Real frá árinu 2009 en hann lék áður með Liverpool við mjög góðan orðstír. Mikel Arteta og Xabi Alonso eru báðir Baskar og Arteta þekkir hann vel.

„Ég hef þekkt hann síðan að við vorum strákar. Ég er viss um að það verða ekki peningalegar ástæður að baki því ef hann velur það að endursemja ekki við Real Madrid," sagði Mikel Arteta við La Cope.

„Hann er mjög göfuglyndur maður og ég er viss um að hann er skoða framtíðina frá öllum hliðum. Hér á Englandi eru fullt af félögum sem hafa áhuga á því að fá hann. Hann ætti að geta valið úr enskum liðum," sagði Arteta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×