Louis van Gaal, þjálfari hollenska landsliðsins í knattspyrnu, vill stýra liði í ensku úrvalsdeildinni áður en hann hættir að þjálfa.
Hann ætlar að hætta með hollenska landsliðið eftir HM í Brasilíu en Van Gaal hefur verið sterklega orðaður við Tottenham að undanförnu.
Nú þegar hitnað hefur rækilega undir DavidMoyes hjá Manchester United er Hollendingurinn einnig orðaður við stjórastöðuna á Old Trafford.
„Markmið mitt er að þjálfa gott lið í ensku úrvalsdeildinni. Ég hef aldrei upplifað andrúmsloftið á Englandi,“ segir Van Gaal í viðtali við þýska blaðið Bild.
Van Gaal hefur unnið meistaratitil í þremur löndum en hann varð Hollandsmeistari með Ajax og AZ Alkmaar, Spánarmeistari með Barcelona og Þýskalandsmeistari með Bayern München.
„Ég vil vinna deildartitil í fjórða landinu. Það er markmiðið og mig langar að klára það. Annaðhvort geri ég það eða hætti og flyt með konunni til Portúgal,“ segir Louis van Gaal.

