Enski boltinn

Moyes á von á erfiðum leik

Kristinn Páll Teitsson skrifar
David Moyes, fyrrum knattspyrnustjóri Everton og Wayne Rooney, fyrrum leikmaður Everton.
David Moyes, fyrrum knattspyrnustjóri Everton og Wayne Rooney, fyrrum leikmaður Everton. Vísir/Getty
David Moyes, knattspyrnustjóri Manchester United, verður í sviðsljósinu á páskadag þegar lærisveinar hans mæta Everton á Goodison Park. Leikurinn verður fyrsti leikur Moyes á Goodison sem stjóri Manchester United.

Moyes sinnti starfi knattspyrnustjóra Everton í ellefu ár áður en hann tók við taumunum hjá Manchester United þegar Sir Alex Ferguson ákvað að hætta. Moyes var afar vinsæll hjá stuðningsmönnum Everton en tilraunir hans til að næla í Leighton Baines og Marouane Fellaini síðastliðið sumar vakti reiði stuðningsmanna Everton.

„Ég er knattspyrnustjóri Manchester United núna og það er það sem ég einbeiti mér að þessa dagana. Leikurinn snýst ekki um mig heldur Everton gegn Manchester United. Ég ætla þó ekki að neita því að ég er spenntur fyrir leiknum, þetta var fyrsti leikurinn sem ég leit á þegar leikjadagskráin var opinberuð.“

Mikil pressa er á Moyes þessa dagana, allt annað en sigur gengur langt með að ganga endanlega frá vonum rauðu djöflanna um sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili.

„Þetta verður skrýtinn dagur en ég hlakka til að takast á við verkefnið. Við verðum einfaldlega að ná góðum úrslitum í leiknum en það verður ekki auðvelt. Okkur hefur gengið vel á útivöllum í vetur en með stuðningsmennina á bak við sig er erfitt að sigra Everton á Goodison Park, ég veit það af eigin raun,“ sagði Moyes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×