Lífið

Bændur rýja fé í borginni

Baldvin Þormóðsson skrifar
Böðvar Guðjónsson segir að það verði mikið stuð á KEX.
Böðvar Guðjónsson segir að það verði mikið stuð á KEX.
„Það er aðalfundur fyrr um daginn en síðan keppa sex bændur á KEX Hosteli í rúningskeppni,“ segir Böðvar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Kexland, en sauðfjárbændur fjölmenna í Reykjavík í dag til þess að halda árlegan aðalfund og árshátíð Landssamtaka sauðfjárbænda.

Að því tilefni bjóða þeir gestum og gangandi til mannfagnaðar á KEX Hosteli á milli fjögur og sex þar sem þaulvanir rúningsmenn munu kynna verklagni sína og keppa um Gullklippurnar.

„Gullklippurnar eru eins konar farandbikar,“ segir Böðvar en verðlaunin eru veitt þeim sem rýir með hvað mestum glæsibrag.

„Alveg tilvalið tækifæri fyrir fjölskyldur að koma með börnin og sýna þeim hvernig handtökin eru í sveitinni. Eina sauðféð sem sum börn hafa séð er bara í frystinum í Bónus.“

Meðal gesta verður sauðfé frá Hraðastöðum í Mosfellsdal en því verður ekið í þar til gerðum sauðfjárvagni og mun dýralæknir sjá um að velferð dýranna sé í fyrirrúmi.

„Hér verða harmóníkuleikarar að spila og ýmislegt stuð,“ segir Böðvar, en rúið verður í portinu á KEX Hosteli og mun viðburðurinn hefjast klukkan fjögur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.