Enski boltinn

Cech óttast ekki samkeppnina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Tékkinn Petr Cech, markvörður Chelsea, segist ekki óttast samkeppni við Thibaut Courtois, 21 árs gamlan belgískan markvörð.

Curtois hefur verið í láni hjá Atletico Madrid og staðið sig vel. Cech hefur verið aðalmarkvörður Chelsea í næstum áratug en margir telja tímabært að Courtois taki stöðu hans hjá Lundúnarliðinu.

„Ef Thibaut Courtois verður hér þegar undirbúningstímabilið hefst í sumar þá er það bara þannig,“ sagði Cech við Daily Mail.

„Það mun ekki breyta neinu. Ég verð að vera betri en allir aðrir markverðir liðsins til að halda sæti mínu.“

„Ef hann kemur aftur og sýnir að hann sé betri en ég þá hann bara hrós skilið. En ég óttast það ekki missa sæti mitt. Ég er ekki það vitlaus að halda að ég verði hér næstu fimm árin bara af því að ég hef verið hér í tíu ár.“

„Ég er ekki að spila með Chelsea út af nafninu mínu. Ég er hér vegna þess að ég hef staðið mig vel og stjórinn telur að það sé liðinu til bóta að hafa mig í markinu.“

„Sá dagur mun renna upp þegar einhver kemur og er betri en ég. Svona er bara fótboltinn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×