Enski boltinn

Arsenal náði hefndum gegn Liverpool

Róbert Jóhannsson skrifar
Markaskorarar Arsenal stinga saman nefjum
Markaskorarar Arsenal stinga saman nefjum
Everton koma til með að þurfa að leggja leið sína til Lundúna í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar eftir sigur Arsenal gegn Liverpool í dag.

Arsenal komst yfir með marki Alex Oxlade-Chamberlain á sautjándu mínútu eftir mikinn darraðadans í vítateig Liverpool.

Daniel Sturridge fékk tvo góða möguleika á því að koma Liverpool yfir á fyrstu fimm mínútum leiksins en fann ekki leiðina inn í markið.

Arsenal kom sér svo í þægilega stöðu þegar þeir unnu boltann á miðjum vellinum í byrjun síðari hálfleiks. Oxlade-Chamberlain geystist með knöttinn upp kantinn og sindi boltann svo út í teig á Lukas Podolski sem kláraði færið sitt gríðarlega vel.

Steven Gerrard minnkaði muninn á 63. mínútu úr vítaspyrnu eftir að Lukas Podolski braut á Luis Suarez.

Stuttu síðar komst Sturridge enn einu sinni einn gegn Fabianski í marki Arsenal en sá síðarnefndi gerði vel og stýrði Sturridge frá markinu.

Leikmenn Liverpool reyndu hvað þeir gátu að kreista fram jöfnunarmark og virkaði Arsenal-liðið nokkuð skelkað til að byrja með.

Eftir því sem á leið voru heimamenn öruggari með forskotið sitt og fóru að taka góðan tíma í allar aðgerðir sínar. Þannig náðu þeir að róa leikinn niður og klára hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×