Innlent

100 þúsund króna björgunarleiðangur eftir flökkukindum

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Þær voru langt að komnar, kindurnar sem björgunarsveitarmenn úr Jökli náðu í upp í Kverkfjöll. Benedikt Arnarson og Bragi Björgvinsson eru ánægðir með gifturíka björgun. Hundurinn Krati fylgist glottandi með.
Þær voru langt að komnar, kindurnar sem björgunarsveitarmenn úr Jökli náðu í upp í Kverkfjöll. Benedikt Arnarson og Bragi Björgvinsson eru ánægðir með gifturíka björgun. Hundurinn Krati fylgist glottandi með. Mynd/Agnar Benediktsson
 „Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs finnst sjálfsagt að greiða björgunarsveitinni fyrir að ná í kindurnar,“ segir Sigvaldi H. Ragnarsson, fjallskilastjóri Jökuldals, norðan Jökulsár.

Þrír björgunarsveitarmenn á bíl björgunarsveitarinnar Jökuls fóru fyrir nokkrum dögum inn í Hveragil austan í Kverkfjöllum til að ná í á með lambi en ferðamenn höfðu séð kindurnar á þessum slóðum og látið vita.

„Hún var langt að komin, í beinni loftlínu voru 200 kílómetrar heim til ærinnar sem er frá Fjallalækjarseli í Þistilfirði,“ segir Sigvaldi.

Kindurnar voru ágætlega haldnar, þó að beit væri takmörkuð þar sem þær voru.

„Þær höfðu einhverja hvönn að bíta þarna svo að líklega er hvannarbragð af þeim,“ segir Sigvaldi.

Hveragil. Það var ekki mikil beit þar sem ærin og lambið héldu sig. Þrátt fyrir það voru kindurnar ágætlega haldnar.
Ekki er búið að semja við björgunarsveitina um greiðslu. Dagsverk í smalamennsku segir Sigvaldi reiknað á 20 þúsund krónur. Þrír menn kosti því 60 þúsund. Ríkið greiði 111 krónur í kílómetragjald fyrir venjulegan bíl á malbiki en hann viti ekki hvað hvað björgunarsveitarbíllinn kosti.

„Björgunarsveitarmennirnir óku 300 kílómetra leið til að ná í kindurnar svo þetta kostar ekki undir 100 þúsund krónum,“ segir Sigvaldi.

Til samanburðar segir hann að fyrir lambið fáist um 10 þúsund krónur í sláturhúsi og að ærin myndi leggja sig á um fimm þúsund krónur.

Sigvaldi segir að sveitarstjórnum beri að hreinsa landið og því hafi verð ákveðið að ná í kindurnar. Hann segist reyndar spyrja sig að því hvort forsætisráðuneytið eigi ekki að greiða reikninginn þar sem kindurnar hafi verið í Vatnajökulsþjóðgarði. Þar eigi enginn upprekstur. Þjóðgarðar séu á forræði forsætisráðuneytisins og því ef til vill eðlilegt að senda reikninginn þangað á endanum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×