Enski boltinn

Manchester United á eftir Fabregas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi hjálpar Cesc Fabregas á fætur.
Lionel Messi hjálpar Cesc Fabregas á fætur. Mynd/Nordic Photos/Getty
Enska blaðið The Evening Standard slær því upp í kvöld að Cesc Fabregas, fyrrum fyrirliði Arsenal og núverandi leikmaður Barcelona, sé efstur á innkaupalista Englandsmeistara Manchester United í sumar. Það yrðu mjög óvænt tíðindi og jafnframt erfitt fyrir Arsenal-stuðningsmenn að sjá Cesc klæðast Manchester United búningnum eins og Robin Van Persie.

The Evening Standard segir að Manchester United hafi þegar gert Barcelona tilboð í spænska landsliðsmanninn sem hefur ekki fundið sig næginlega vel með liði Barcelona. Blaðamaður The Evening Standard hefur einnig heimildir fyrir því að United ætli einnig að reyna að kaupa Cristiano Ronaldo frá Real Madrid í sumar.

Barcelona keypti Cesc Fabregas á 35 milljónir punda frá Arsenal haustið 2011 en skuldar enska félaginu enn fimm milljónir af þeirri upphæð. Barcelona-menn vilja fá í það minnsta 20 milljónir punda fyrir Fabregas.

Cesc Fabregas er 26 ára gamall og ætti enn að eiga sín bestu ár eftir í boltanum þótt að hann hafi ekki fundið sig á þessu tímabili. Hann er þó með 10 mörk og 13 stoðsendingar í spænsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni sem þykir ekki slæmt á flestum bæjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×