Lífið

Stóð og féll með sjálfri sér

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
mynd/stefán
Á árinu sem er að líða var Tanja Ýr Ástþórsdóttir krýnd fegurst íslenskra kvenna. Hún saumar nú á sig áramótakjól.



„Fegurðardrottning Íslands verður seint valin kona ársins því það að vera fegurðardrottning er ekki afrek í sjálfu sér. Fegurðardrottningar hafa hins vegar tækifæri til að afreka margt í nafni titilsins og láta gott af sér leiða,“ segir Tanja Ýr, sem á nýárinu ætlar að svipta hulunni af leyndarmáli sem snýr að góðgerðarmálum sem fegurðardrottning Íslands.

„Mér hefur þótt skrítið að vera gagnrýnd fyrir að taka þátt í fegurðarsamkeppni. Með þeirri ákvörðun stóð ég og féll með sjálfri mér og það var alfarið mitt val. Í fegurðarsamkeppnum er heldur engin ein fegurst útlits; það þarf að horfa á heildarmyndina og innri mann.“

Að eðlisfari er Tanja Ýr feimin og þurfti mikið tiltal til að þora að stíga á svið sem keppandi í Fegurðarsamkeppni Íslands, þar sem hún var krýnd fegurst kvenna í september.

„Ég ráðfærði mig stöðugt við foreldra mína og eldri systur og fékk alls staðar hvatningu og stuðning. Ég ákvað því að slá til en það tók sinn tíma að læra að ganga á háum hælum og fyrir framan hóp fólks. Smám saman naut ég mín betur og eftir keppnina var ég orðin mun sterkari og sjálfsöruggari en áður.“

Tanja Ýr segir titilinn lítt hafa breytt lífi sínu en að hann hafi breytt henni sjálfri.„Titillinn opnaði margar dyr sem ég hefði annars hvorki séð né reynt að opna. Fegurðarsamkeppnir eru því uppörvandi, skemmtilegar og styrkja ungar konur til að stíga út fyrir þægindarammann og elta sína drauma.“



Viðburðaríkt ár að baki


Um helgina ætlar fegursta kona lýðveldisins að sauma sér áramótakjól.

„Mig hefur lengi langað að læra að sauma og mun njóta liðsinnis móður minnar við saumaskapinn. Ég hef lengi haft kjólinn í kollinum en hann verður hvítur og síddin rétt neðan við hnén,“ upplýsir Tanja Ýr, full tilhlökkunar fyrir áramótin.

„Á gamlárskvöld er árlegt matarboð heima og mamma býður systrum mínum, mökum og systrabörnum í skemmtilegt vina- og fjölskylduboð. Mamma vill helst bjóða öllum heim til að fagna nýju ári og vinir mínir fjölmenna til að borða með okkur, spila á spil, sprengja flugelda og fara saman á brennu.“



Þegar Tanja Ýr lítur yfir farinn veg á árinu stendur margt upp úr.

„Það er vitaskuld ógleymanlegt að hafa verið valin Ungfrú Ísland en ekki síður að hafa farið í óvænta ferð til Tenerife með foreldrum mínum og til ömmu minnar á níræðisaldri austur í Neskaupstað. Ég mun líka minnast ársins fyrir hvað ég eignaðist margar vinkonur í gegnum fegurðarsamkeppnina og hversu þétt vinir og ættingjar stóðu við bakið á mér. Ég vissi fyrir að ég ætti góða að en þarna kom berlega í ljós hversu rík ég er af góðu og traustu fólki,“ segir Tanja Ýr um viðburðaríkt ár sem einnig olli tímamótum þegar hún hóf nám í fjármálaverkfræði við Háskólann í Reykjavík í haust.

„Á vormisseri ætla ég að skipta yfir í hugbúnaðarverkfræði því það á betur við mig. Ég hef meira gaman af tölvum en fjármálum og sé fyrir mér að vinna við það í framtíðinni. Framtíðin er björt og mig langar líka að stofna fjölskyldu og læra að sauma meira.“

 

Nammigrís á jólum

Tanja Ýr segir enga sérstaka tilfinningu fylgja því að vera fegurst.

„Það er auðvitað gaman en ég tók ekki þátt til þess að vinna og bjóst alls ekki við því. Því var sigurinn dálítið skrítinn og óraunverulegur.“



Á nýárinu keppir Tanja Ýr í Miss World í Lundúnum og ber titilinn Ungfrú Ísland fram á haust.

„Ég hef alltaf hugsað mikið um útlit og heilsu og til eru af mér gamlar myndir þar sem ég stelst í förðunardót systra minna og pósa fyrir framan myndavélina. Ég stunda líkamsrækt og loftfimleika og er dugleg að prófa ýmsar jaðaríþróttir. Þá er ég manna duglegust yfir nammiskálinni á jólum en það bitnar ekki á holdafarinu ef maður drekkur vel af vatni og er duglegur að hreyfa sig.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.