Lífið

Hátíðartónleikar í Gamla bíói

Moses Hightower
Moses Hightower Fréttablaðið/Anton brink
Hljómsveitirnar Moses Hightower, Ylja og Snorri Helgason hafa í sameiningu ákveðið að blása til hátíðartónleika milli jóla og nýárs.

Tónleikarnir fara fram í Gamla bíói, í kvöld, þann 28. desember.

„Tónleikarnir eru því tilvaldir til þess að jafna sig eftir jólaösina sem og til að hita sig upp fyrir nýtt ár,“ segir Steinþór Helgi Arnsteinsson, einn skipuleggjenda tónleikana.

„Hljómsveitirnar munu skarta sínum skærasta í sérstökum hátíðarbúningi og lofa einstakri upplifun. Þess vegna verður að teljast mjög líklegt að eitt eða tvö jólalög fái að hljóma í meðförum sveitanna á tónleikunum,“ bætir Steinþór við.

„Gamla bíó er líka einkar viðeigandi tónleikastaður fyrir kvöldstund sem þessa. Húsið hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga undanfarið en staðurinn skartar að margra mati besta tónleikasal landsins,“ útskýrir hann.

Moses Hightower hafa notið mikillar velgengni undanfarin ár, og síðasta breiðskífa þeirra „Önnur Mósebók“ kom út í ágúst árið 2012, auk þess að vera valin plata ársins hjá Fréttablaðinu á síðasta ári hlaut sveitin Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir plötuna sem laga- og textahöfundar ársins. Auk þess hlaut sveitin Menningarverðlaun DV í tónlistarflokki fyrir sömu plötu. Nýlega kom út endurhljóðblönduð útgáfa af plötunni „Önnur Mosebók“ undir heitinu „Mixtúrur úr Mósebók” þar sem fjölmargir lögðu hönd á plóg.

Hljómsveitin Ylja kom er tiltölulega ný en hefur hlotið mikla athygli. Lag þeirra Út klifraði hátt á Vinsældalista Rásar 2. Frumburður sveitarinnar, sem er samnefnd hljómsveitinni, kom út í nóvember á síðasta ári.

Tónlistarmaðurinn Snorri Helgason hefur á undanförnum árum skapað sér gott orð í tónlistarheiminum bæði innanlands sem utan. Tónlist Snorra er nokkurs konar þjóðlagapoppbræðingur þar sem sterkar melódíur og kassagítarinn eru í forgrunni.

Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 21:00 en húsið opnar klukkutíma fyrr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.