Fótbolti

Lagerbäck sendi Zlatan heim og setti í bann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lars ásamt Zlatan.
Lars ásamt Zlatan. Nordicphotos/AFP
Í starfi sínu sem landsliðsþjálfari Svía þurfti Larsi Lagerbäck eitt sinn að taka erfiða ákvörðun. Þrír lykilmenn í liðinu, Zlatan Ibrahimovic, Olof Mellberg og Christian Wilhelmsson, brutu agareglur liðsins.

Þeir voru sendir heim og settir í eins leiks bann. Hann sagði í viðtali við blaðamann fyrir þremur árum að ákvörðunin hafi verið sín erfiðasta í starfi. Hann sé maður fárra reglna en ein var skýr.

Eftir kvöldmat og fram að morgunmat áttu leikmenn að halda sig innan hótelsins. Málið hafi verið flóknara enda mennirnir í lykilhlutverkum í liðinu og hafi því enn meiri ábyrgð gagnvart öðrum leikmönnum.

„Það gengur ekki að allir hegði sér vel nema nokkrar stjörnur,“ segir Lagerbäck sem bendir á að leikmennirnir hafi þó ekki neytt áfengis eða neins slíks. Hann muni aldrei vita fyrir víst hvort ákvörðunin hafi verið rétt en leikmennirnir hafi á vissan hátt borið virðingu fyrir henni.

„Það sorglega við þetta er að ef leikmenn hefðu spurt mig leyfis hefði ég líklega leyft þeim að yfirgefa hótelið í skamma stund því einn þeirra átti afmæli.“

Nánar er rætt við landsliðsþjálfarann í helgarblaði Fréttablaðsins. Viðtalið má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×