Fótbolti

Annað sætið ætti að duga íslenska liðinu í umspil

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aron Einar og félagar á æfingu í gær.
Aron Einar og félagar á æfingu í gær. mynd/pjetur
53 Evrópuþjóðir berjast um þrettán farseðla í lokakeppni heimsmeistarmótsins í Brasilíu á næsta ári. Fjölmargar þjóðir geta tryggt sér efsta sæti síns riðils í kvöld en einnig er hart barist um annað sætið í riðlinum.

Sigurvegarar riðlanna níu fara beint í lokakeppnina. Átta af þeim níu liðum sem hafna í öðru sæti spila svo leiki um fjögur laus sæti í Brasilíu.

Til að meta hvaða átta lið komast í umspilið er miðað við árangur gegn liðum í fyrsta, þriðja, fjórða og fimmta sæti riðilsins. Þannig telja ekki úrslitin gegn liðinu í neðsta sæti enda fimm lið í einum riðlinum.

Noregur situr sem stendur í 2. sæti E-riðils okkar Íslendinga. Sem stendur er Noregur það lið í 2. sæti riðlanna með lakastan árangur eins og sést hér að neðan og kæmist því ekki í umspilið. Þar spilar inn í að sex af ellefu stigum Norðmanna komu gegn Kýpur sem situr í neðsta sæti riðilsins. Í samanburði liðanna í öðru sæti riðlanna hefur Noregur aðeins fimm stig.

Staða liðanna í öðru sæti riðlanna eftir sex leiki

Þjóð (riðill) Stig


*Króatía (A) 17

Grikkland (G) 13

Rússland (F) 12

Frakkland (I) 11

Rúmenía (D) 10

Svartfjallaland 9 (H)

**Svíþjóð (C) 8

Búlgaría (B) 7

Noregur (E) 5

*Króatar hafa spilað sjö leiki

**Svíar hafa spilað fimm leik

Ísland, sem situr í fjórða sæti riðilsins sem stendur, hefur tíu stig. Ekkert þeirra kom gegn botnliðinu, Kýpur. Liðið tapaði ytra gegn Kýpur en á heimaleikinn eftir í október.

Sigur á Albönum í kvöld er af þeim sökum mikilvægari en sigur gegn Kýpur síðar í mánuðinum hafni Kýpur í botnsæti riðilsins sem allt bendir til. Sigur í kvöld væri risaskref í átt að öðru sæti riðilsins. Þá hefði Ísland þrettán stig og ekkert þeirra væri úr leikjum gegn botnliðinu.

Til að komast í umspilið fyrir fjórum árum var síðasta lið inn í umspilið með tólf stig. Noregur sat eftir með tíu stig. Sama fyrirkomulag var og nú. Mikið þyrfti að ganga á til þess að annað sætið í riðlinum dygði ekki Íslandi takist landsliðinu á annað borð að landa því sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×