Íslenski boltinn

Týndi medalíunni langþráðu um leið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Reynsluboltinn Daði Guðmundsson varð loksins bikarmeistari með Fram um helgina. Hann stefnir að því að verða leikjahæsti leikmaður Fram. Fréttablaðið/stefán
Reynsluboltinn Daði Guðmundsson varð loksins bikarmeistari með Fram um helgina. Hann stefnir að því að verða leikjahæsti leikmaður Fram. Fréttablaðið/stefán
Daði Guðmundsson, leikmaður Fram og nýkrýndur bikarmeistari, hefur í gegnum tíðina verið kallaður herra Fram.

Framarar urðu bikarmeistarar á laugardaginn eftir magnaðan sigur á Stjörnunni í vítaspyrnukeppni. Þetta var fjórði bikarúrslitaleikurinn sem Daði kom að í Framtreyjunni en fram að leiknum á laugardaginn höfðu þeir allir tapast.

Loksins var gullmedalían komin um hálsinn en þar dvaldi hún ekki lengi. Daði náði að týna henni um leið og hann kom inn í búningsklefa og hefur hún ekki fundist enn.

„Ég var með medalíuna á mér þegar ég fór inn í klefa en í öllum fagnaðarlátunum hef ég lagt hana frá mér,“ segir Daði Guðmundsson.

„Líklega hefur einhver bara óvart stungið henni í töskuna en ég vonast til þess að hún verði komin í leitirnar þegar ég fer á æfingu á eftir,“ segir Daði í gær.

„Loksins vann ég þennan bikar og var þetta hápunkturinn á mínum ferli,“ segir Daði. Fyrir bikarúrslitaleikinn árið 2009 gegn Blikum var Daði í byrjunarliðinu en aðeins tæpur í baki. Því var hann sprautaður. Það fór ekki betur en svo að Daði lamaðist í raun í nokkra klukkutíma og

gat ekki spilað.

Daði hefur tekið þátt í 370 leikjum fyrir Fram en Pétur Ormslev á 372 leiki fyrir félagið.

„Mig vantar held ég tvo eða þrjá leiki til að verða leikjahæsti leikmaður í sögu Fram og vonandi hefst það í sumar. Samningur minn rennur út eftir tímabilið en ég hef áhuga á því að vera áfram í Safamýrinni. Vonandi næ ég metinu í ár.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×