Innlent

Minna selst af sígarettum eftir miklar hækkanir

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Í ár hefur sala á sígarettum minnkað um 10,4 prósent frá árinu 2012 en samdrátturinn nam einungis 2,9 prósentum milli áranna 2011 og 2012.
Í ár hefur sala á sígarettum minnkað um 10,4 prósent frá árinu 2012 en samdrátturinn nam einungis 2,9 prósentum milli áranna 2011 og 2012.
Beint samband er á milli skattlagningar á tóbaki og neyslu þess. Sala á sígarettum hefur minnkað um 10,4% á þessu ári eftir mikla hækkun um áramót.

 „Skattur á tóbaki er vænlegasta leiðin til þess að draga úr neyslu tóbaks og það er greinilega samband þarna á milli,“ segir Viðar Jensson, verkefnastjóri í tóbaksvörnum hjá Embætti landlæknis.

Sala á tóbaki hefur dregist saman um ellefu prósent á árinu. Tóbaksgjald var hækkað um fimmtán prósent um áramótin og hefur það aldrei verið hækkað jafn mikið.

Viðar Jensson
Sem dæmi um áhrif tóbaksgjaldsins fór gjald ríkisins á sígarettupakkann úr 365,64 krónum árið 2012 í 439,83 krónur árið 2013, sem samsvarar um sautján prósenta hækkun.

Nýjar tölur frá fjármálaráðuneytinu um greiðsluafkomu ríkissjóðs á fyrri helmingi ársins sýna að tekjur af tóbaksgjaldi hafa aukist um 11,5 prósent frá því í fyrra. Hins vegar eru tekjurnar um tíu prósentum undir áætlun, sem rekja má til samdráttar í sölu.

Viðar segir að alþjóðlegar rannsóknir hafi lengi sýnt fram á að auknar álögur dragi úr neyslu og sölu á tóbaki, en samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni er aukin verðlagning á tóbak helsti áhrifavaldur þess að neysla á tóbaki dragist saman.

„Þetta er afar ánægjuleg þróun en aukinn samdráttur tengist eflaust hækkun tóbaksgjaldsins. Nú hefur verð á tóbaki loksins hækkað umfram verðbólgu og því er verðið kannski fyrst að bíta núna.“

Embætti landlæknis hefur ekki tekið saman tölur um neyslu á tóbaki fyrir árið 2013 en Viðar á von á að niðurstaðan endurspegli nýjar sölutölur að einhverju leyti.

Einar S. Einarsson, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá ÁTVR, segir að erfitt sé að fullyrða um ástæður samdráttar. „Auk skattahækkana getur samdráttur tengst kaupmætti, gengisbreytingum, forvörnum og öðru slíku.“

Í fyrra voru tekjur ríkisins af tóbaksgjaldi um fimm milljarðar króna en gjaldið er fyrst og fremst sett á til þess að koma til móts við beinan kostnað ríkisins af afleiðingum neyslu þessara vara.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×