Innlent

Vonast eftir Þjóðhátíð án nauðgana

Jóhannes Stefánsson skrifar
Viðbúnaður er vegna kynferðisofbeldis á Þjóðhátíð.
Viðbúnaður er vegna kynferðisofbeldis á Þjóðhátíð. Óskar P. Friðiksson.
„Þetta er blettur á íslensku þjóðfélagi og á ekki að vera á neinni hátíð neins staðar,“ segir Birgir Guðjónsson, formaður Þjóðhátíðarnefndar, um kynferðisofbeldi á útihátíðum.

Þjóðhátíðarnefnd vonast til þess að hátíðin í ár verði án nauðgana og annars kynferðisofbeldis. „Við erum með allar klær úti til að koma í veg fyrir þetta og mjög öflugt lið. Við erum tilbúin að leggja mikið á okkur til að útrýma þessu,“ segir Birgir.

Öryggismyndavélar verða víða í Herjólfsdal og forvarnarteymi ÍBV, Bleiki fíllinn, verður á hátíðarsvæðinu. „Bleiki fíllinn verður með okkur í ár og verður mjög öflugur. Það er forvarnarhópur sem var stofnaður á vegum ÍBV gegn kynferðisofbeldi. Hann reyndist okkur mjög vel í fyrra,“ segir Birgir.

Þá verða um hundrað manns í gæslu á svæðinu, fyrir utan hefðbundna viðveru lögreglu.

Ef allt kemur fyrir ekki verða sérfræðingar á svæðinu í svokölluðu áfallateymi. „Í þessu teymi eru sjö einstaklingar sem eru háskólamenntaðir á sviði félags- og heilbrigðisvísinda. Við erum á sólarhringsvöktum og erum með aðsetur í sjúkraskýlinu,“ segir doktor Hjalti Jónsson.

Búist er við mjög mikilli aðsókn á Þjóðhátíð. „Það er mikið bókað í allar ferðir. Veðrið hefur sitt að segja í þessu en spáin er mjög góð fyrir okkur um helgina,“ segir Birgir Guðjónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×