Innlent

Annríki vegna ferðamanna

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Mikið álag hefur verið á björgunarsveitum síðustu daga. Myndin er úr safni.
Mikið álag hefur verið á björgunarsveitum síðustu daga. Myndin er úr safni.
Gífurlegt álag var á leitarmönnum Landsbjargar á þriðjudag og fram á miðvikudag vegna ferðafólks sem týndist. Alls voru níu björgunarsveitir kallaðar út í þrjár umfangsmiklar leitir að fimm erlendum ferðamönnum. Alls tóku 88 leitarmenn þátt í leitunum, að sögn Björns Þorvaldssonar hjá Landsbjörg.

Allt fannst fólkið; tvær franskar konur sem festu bíl sinn á línuvegi austan Svínadals, skammt frá Skorradal, franskt par sem fannst við Grænalón í Núpstaðaskógi eftir ítarlega leit við annað Grænalón, austan Landmannalauga, og síðan rússnekskur göngumaður sem fannst við rætur Hvannadalshnúks.

Í gær fékk Björgunarsveitin Björg á Eyrarbakka verkefni þegar ferðamaður í Raufarhólshelli, skammt frá Þorlákshöfn, missti vasaljósið inni í hellinum og fann hvorki rafhlöðurnar né leiðina út.

Hörður Már Harðarson, formaður Landsbjargar, segir þó engan bilbug á sínu fólki, sem heldur áfram að treysta á skilning fjölskyldunnar, vinnuveitenda og þolrif sjálfs sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×