Innlent

Berin þroskuð um miðjan ágúst

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Bláber í Eyjafirði eins og þau litu út á fimmtudag.
Bláber í Eyjafirði eins og þau litu út á fimmtudag.

Horfur á berjasprettu eru góðar, að mati Emilíu Rafnsdóttur, leikskólakennara og berjavinar, sem kannað hefur stöðuna í Borgarfirði og Eyjafirði.

„Það lofar mjög góðu með bláberin en þau verða þó ekki orðin almennilega þroskuð fyrr en um miðjan ágúst í landi sem ég á við Munaðarnes. Í hittifyrra var ég farin að tína bláber þar í lok júlí. Núna verður kannski hægt að fara aðeins fyrr í ber fyrir norðan en í Borgarfirðinum. Grænjaxlarnir á bláberjalynginu ofan við Kristnes í Eyjafirði eru aðeins farnir að taka lit.“

Emilía gerir ráð fyrir að vegna rigningartíðar á suðvesturhorninu í sumar verði bláberin þar ekki orðin nógu góð til tínslu fyrr en í lok ágúst. „En ég hef samt aldrei skilið það viðhorf að ekki megi fara of snemma af stað. Það er til nóg af berjum í landinu og núna geta börn til dæmis alveg farið að tína krækiber þótt þau séu smá. Það er svo gott að vera úti í náttúrunni.“

Emilía Rafnsdóttir

Sjálf kveðst hún helst tína bláber, bæði í Borgarfirði og í Brynjudal í Hvalfirði. „Ég fer svo stundum í sérferðir norður í aðalbláber. Ég tíni aldrei mikið þar sem ég tíni með höndunum en alveg nóg til þess að eiga í frysti allan veturinn.“

Á vefnum berjavinir.com er hægt að fylgjast með fréttum af berjasprettu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.