Innlent

Afdrifaríkt flipp söngpars á Grenivík

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Flippið þeirra á bryggjunni á Grenivík gæti endað í þýsku brúðkaupi á Mallorca.
Flippið þeirra á bryggjunni á Grenivík gæti endað í þýsku brúðkaupi á Mallorca. fréttablaðið/stefán
Rómantísk og fumlaus framganga hjónanna Sigríðar Heiðu Hallsdóttur og Þórðar Björns Ágústssonar á bryggjunni á Grenivík varð til þess að þeirra er nú vænst til spilamennsku í þýsku brúðkaupi á Mallorca á næsta ári.

Þau voru stödd á ættarsetrinu á Grenivík þegar par nokkurt á bryggjunni vakti athygli þeirra. „Við vorum annars ekkert að hugsa um það fyrr en einn krakkinn kemur inn og segir að karlinn hafi skellt sér á skeljarnar,“ rifjar Sigríður Heiða upp.

Þetta var hann Tobias sem þarna bað Önju og hann hefði vart getað valið betri stund né stað því tómstundagaman hjónanna Sigríðar Heiðu og Þórðar Björns er að spila og syngja. Því varð úr að þau fóru niður að bátabryggju til að gæða bónorðsstundina frekari rómantík. Þórður tók gítarinn, Sigríður Heiða þandi raddböndin og rómantíski slagarinn hans Toms Waits, Little Trip to Heaven, ómaði um bryggjuna.

„Þau vissu ekki hvaðan á þau stóð veðrið,“ rifjar Sigríður Heiða upp. „Og það var ekkert við tilfinningarnar ráðið svo þau grétu þarna á bryggjunni meðan við sungum lagið. Þau lýstu því síðar að þeim hefði fundist þetta nánast óraunverulegt. Við birtumst þeim eins og álfar, sögðu þau.“

Væntanleg brúðhjón Þau Tobias og Anja vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar Óreiða birtist á bryggjunni.
Komu bæði af fjöllum

Anja trúði því ekki að þetta hefði verið sjálfsprottið hjá tónlistarhjónunum og grunaði biðilinn sinn um að hafa skipulagt þetta á laun. „En hann kom náttúrlega alveg af fjöllum eins og hún,“ segir Sigríður Heiða.

En nú er það væntanleg brúður sem hyggur á launráð til að koma brúðgumanum á óvart þegar þau verða gefin saman á Mallorca næsta sumar. „Nú vill hún að við komum til Mallorca og spilum lagið í brúðkaupinu þar án þess að láta hann vita,“ segir Sigríður Heiða.

Enn hafa engin fastmæli verið bundin í þeim efnum en hjónin músíkölsku eru að hugsa málin. „En svona getur þetta verið, maður bregður á leik og flippar norður á Grenivík og það verður síðan til þess að okkar er vænst suður á Mallorca. Svona getur lífið verið skemmtilegt,“ segir hún.

Þau eru ekki alveg óvön því að troða upp en dúett þeirra er kallaður Óreiða. Þau munu til dæmis taka nokkur lög á Kaffi Gæs í næsta mánuði en eins taka þau upp fræg lög og hlaða þeim niður á vefsíðu Soundcloud.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×