Innlent

Spyrja um kjarabætur

Stígur Helgason skrifar
Margir eldri borgarar og öryrkjar vonuðust eftir leiðréttingum eftir kosningaloforð stjórnarflokkanna, en aðeins tvær af sex skerðingum hafa gengið til baka.
Margir eldri borgarar og öryrkjar vonuðust eftir leiðréttingum eftir kosningaloforð stjórnarflokkanna, en aðeins tvær af sex skerðingum hafa gengið til baka. Fréttablaðið/Vilhelm
Brögð eru að því að eldri borgarar og öryrkjar hafi misskilið inntak lagabreytingar á sumarþingi, þar sem hluti kjaraskerðinga þeirra frá árinu 2009 var afturkallaður. Sumir bjuggust við hærri greiðslum um síðustu mánaðamót, sem þeir eiga ekki rétt á fyrr en um þau næstu, og kjör sumra munu alls engum breytingum taka þótt þeir hafi staðið í þeirri trú.

Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalagsins, segir að síminn hafi varla stoppað hjá honum. „Það var mjög stíft og mikið að gera síðustu dagana sem við vorum með skrifstofuna opna. Það linnti ekki látum,“ segir hann.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, tekur undir þetta og segir þó nokkra hafa hringt og spurst fyrir um breytingarnar. Sumir hafi staðið í þeirri trú að kjör þeirra myndu batna núna strax um síðustu mánaðamót, þegar hið rétta er að breytingarnar sem lagafrumvarp félagsmálaráðherra kváðu á um taka ekki gildi fyrr en 1. ágúst.

Þá hafi margir haldið sig mundu fá mikla kjarabót, þegar raunin væri önnur. „Einhver hringdi í mig og sagðist fá svona 2.000 króna aukningu,“ segir Jóna.

Nokkrir lífeyrisþegar hafa haft samband við Fréttablaðið af sömu ástæðu undanfarna daga.

Guðmundur segir þetta skýrast af því að væntingarnar hafi verið miklar vegna yfirlýsinga stjórnarflokkanna fyrir kosningar. Þeir hafi boðað að allar sex skerðingarnar frá árinu 2009 yrðu afturkallaðar. Aðeins tvær hafi nú gengið til baka.

„Þarna eru þeir að fá mest sem hafa mest í dag,“ segir Jóna Valgerður, þótt hún lýsi ánægju með að eitthvað skuli hafa verið gert á annað borð. „En þetta var kannski ekki alveg réttasta forgangsröðunin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×