Innlent

Verslunarstjóri hljóp uppi þjóf

Brjánn Jónasson skrifar
Þjófurinn sem verslunarstjóri Bónus hljóp uppi var með þýfi að andvirði tæplega 10 þúsund króna úr versluninni.
Þjófurinn sem verslunarstjóri Bónus hljóp uppi var með þýfi að andvirði tæplega 10 þúsund króna úr versluninni. Fréttablaðið/vilhelm
Verslunarstjóri í Bónus elti uppi mann sem hann sá stela úr verslun sinni, og hljóp hann uppi með lögregluna í símanum. Maðurinn reyndist hafa stolið úr fleiri verslunum.

Lögregla handtók manninn eftir að verslunarstjórinn stöðvaði för hans, en atvikið átti sér stað síðastliðinn fimmtudag. Maðurinn var með þýfi úr Bónus að andvirði tæplega 10 þúsund króna. Hann henti auk þess frá sér á flóttanum poka með fatnaði sem hann játaði að hafa stolið úr annarri verslun.

Maðurinn er vímuefnaneytandi sem viðurkenndi við yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hafi ætlað að skipta á vörunum og fíkniefnum. Lögreglan telur hann fjármagna fíkniefnaneyslu sína meðal annars með þjófnaði úr verslunum.

Maðurinn hefur einnig játað fjölda sambærilegra brota. Hann hefur til dæmis játað að hafa stolið bakpoka af ferðamanni, tveimur bjórum úr ÁTVR og 100 þúsund króna farsíma úr símabúð. Þá er hann einnig grunaður um innbrot í hjólhýsi, en neitar sök í því máli. Hann á langan sakaferil að baki.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór fram á gæsluvarðhald yfir manninum til 16. ágúst þar sem talið var líklegt að hann bryti af sér aftur. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfuna fyrir helgi, og Hæstiréttur hefur nú staðfest þá niðurstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×