Innlent

Nýtt sláturhús fast í gömlu skipulagi

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Allt er til reiðu í endurgerðu sláturhúsi í Brákarey sem áður var stórgripasláturhúsið í Borgarnesi.
Allt er til reiðu í endurgerðu sláturhúsi í Brákarey sem áður var stórgripasláturhúsið í Borgarnesi.
Ekki fæst leyfi til að vinna í sláturhúsi í Borgarnesi þótt það sé hannað í samvinnu við Matvælastofnun. Ástæðan er aðalskipulag sem aldrei kom til framkvæmda.

„Það er allt klárt. Við gætum gengið inn, ýtt á takka og hafist handa en þess í stað situr maður og nagar neglurnar,“ segir Guðjón Kristjánsson, framkvæmdastjóri Sláturhúss Vesturlands.

Fyrir tæpum tveimur árum keypti Sláturhús Vesturlands gamla stórgripasláturhúsið á Brákarey í Borgarnesi og svo var hafist handa við endurgerð þess í góðu samstarfi við Matvælastofnun. Það var svo tilbúið fyrir tæpum fimm mánuðum en þá kom babb í bátinn.

Þau tíðindi bárust að aðalskipulag sem gerði ráð fyrir íbúabyggð í Brákarey hefði tekið gildi mánuði áður en félagið keypti sláturhúsið. „Við vissum ekkert af þessu,“ segir Guðjón.

Borgarbyggð reyndi svo að gera breytingu á aðalskipulaginu svo starfsemi gæti hafist í sláturhúsinu en Skipulagsstofnun féllst ekki á þá breytingu.

Guðjón segir að úr því sem komið er geti það tafist um tvo til tvo og hálfan mánuð að fá breytinguna í gegn. „Þá er náttúrlega sláturtíðin í september að baki svo við missum af því,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×