Erlent

Meira af Berlínarmúrnum rifið niður

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ferðamenn stilla sér upp til myndatöku meðan lögregla fylgist með.
Ferðamenn stilla sér upp til myndatöku meðan lögregla fylgist með. Nordicphotos/AFP
„Ég trúi því ekki að þeir hafi komið hingað í skjóli myrkurs með svo laumulegum hætti,“ segir Kani Alavi, talsmaður listamannahópsins East Side Gallery, sem hefur haldið við hluta af gamla Berlínarmúrnum og skreytt listaverkum. „Það eina sem þeir sjá eru peningar. Þeir bera ekkert skynbragð á sögulegt og listrænt gildi staðarins.“

Íbúar í nágrenninu lýstu einnig yfir furðu og hneykslan þegar verkamenn mættu til að flytja burt hluta af Berlínarmúrnum. Samtals tóku þeir niður nærri fimm metra langan kafla af þeim bút múrsins sem látinn var standa eftir að Austur-Þýskaland gafst upp á að halda ríkisborgurum landsins innan landamæranna fyrir nærri aldarfjórðungi.

Framkvæmdirnar núna eru gerðar til að rýma fyrir nýjum veg inn að byggð nýrra háhýsa með lúxusíbúðum við fljótið Spree.

Á þriðja hundrað lögreglumanna voru viðstaddir til að koma í veg fyrir að mótmælendur færu að atast í verkamönnunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×