Lífið

Metþátttaka í forritunarkeppni

Sara McMahon skrifar
Sigrún María Ammendrup, skrifstofustjóri tölvufræðideildar HR, segir metþátttöku í forritunarkeppni framhaldsskólanema í ár.
Sigrún María Ammendrup, skrifstofustjóri tölvufræðideildar HR, segir metþátttöku í forritunarkeppni framhaldsskólanema í ár. fréttablaðið/Vilhelm
„Það er mjög gaman að vera á svæðinu og fylgjast með keppninni,“ segir Sigrún María Ammendrup, skrifstofustjóri tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík, um forritunarkeppni sem haldin er í HR komandi laugardag. Keppnin er opin öllum framhaldsskólanemum, einnig þeim sem hafa áhuga á forritun án þess þó að hafa lært hana.

Keppnin var fyrst haldin árið 2001 og að sögn Sigrúnar Maríu hefur ásóknin aukist ár frá ári. Þegar hafa 45 lið skráð sig til keppni og er það metþátttaka. „Keppendur koma á föstudaginn og fá leiðbeiningar og boli og mæta svo aftur á laugardagsmorgni, fá morgunmat og hefja keppni,“ segir hún. Aðeins tvö lið sem skráð eru í keppnina eru skipuð stúlkum og viðurkennir Sigrún María að það hafi reynst erfitt að fá stúlkur til að taka þátt. „Við erum alltaf að hvetja stelpur til þátttöku en þær eru enn í minnihluta, sem er synd því þær hafa staðið sig mjög vel síðustu ár.“

Keppt er í þremur deildum; Kirk-deildinni, Spock-deildinni og Scotty-deildinni. Spurð út í nöfn deildanna segir Sigrún María að reynt sé að tengja þau vísindum á einhvern hátt. „Við veljum nýtt þema á hverju ári. Í fyrra hétu deildirnar til dæmis eftir persónum gamanþáttanna The Big Bang Theory. Nöfnin eru oftast tengd vísindum eða öðru sem við höldum að sé vinsælt hjá þessum hópi,“ segir hún að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.