Erlent

Netanjahú reynir að mynda breiða stjórn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Yair Lapid, sem er þekktur og virtur sjónvarpsmaður í Ísrael, vann óvæntan sigur með nýstofnuðum flokki sínum. fréttablaðið/AP
Yair Lapid, sem er þekktur og virtur sjónvarpsmaður í Ísrael, vann óvæntan sigur með nýstofnuðum flokki sínum. fréttablaðið/AP
Snemma á síðasta ári tilkynnti Yair Lapid, þekktur sjónvarpsmaður í Ísrael, að hann hygðist stofna stjórnmálaflokk. Ári síðar er Yesh Atid, hinn nýstofnaði flokkur, orðinn sá næstfjölmennasti á ísraelska þinginu.

Faðir hans, Tommy Lapid, lék sama leik fyrir tíu árum. Hann var einnig þekktur fjölmiðlamaður sem sneri sér að stjórnmálum, gekk til liðs við Shinui-flokkinn og vann mikinn kosningasigur.

Yair er, eins og faðir hans, veraldlega sinnaður miðjumaður sem á auðvelt með að höfða til almennings. Hann hefur það nú í hendi sér hvort Benjamín Netanjahú getur setið áfram við stjórnvölinn. Hann segist ekki hafa áhuga á að mynda bandalag flokka sem hefði það markmið að halda Netanjahú frá völdum.

Stjórnarflokkarnir héldu ekki meirihluta sínum á þingi, fengu samtals 60 þingsæti af 120 og þurfa því að fá liðsinni frá miðju- eða vinstriflokkum.

Netanjahú hefur stuðst við smærri flokka strangtrúargyðinga en segist nú ætla að reyna að mynda breiða stjórn hófsamari hægri- og vinstriflokka. Staðan er hins vegar snúin því ólíklegt er að strangtrúarflokkarnir geti starfað með Lapid.

Hann boðar stjórn sem fær þrjú meginverkefni: að svipta heittrúargyðinga undanþágu frá herskyldu, að gera húsnæðisverð viðráðanlegt og gera breytingar á stjórnkerfinu þannig að smærri flokkar hafi ekki þau miklu áhrif á stefnu ríkisstjórna og nú er.

Versnandi kjör landsmanna hafa valdið verulegri ólgu á síðustu mánuðum og endurspeglast í úrslitum kosninganna, ekki síst í sigri flokks Lapids sem hefur lagt meiri áherslu á velferðarmál en öryggismál og samskiptin við Palestínumenn.

Leiðtogar Palestínumanna segja að úrslit kosninganna hafi komið þægilega á óvart, en hafa þó efasemdir um að harðlínustefna Netanjahús muni breytast mikið: „Það kemur enginn frelsari, sem færir okkur frið með hraði," segir Hanan Ashrawi, þingkona á þingi Palestínumanna í Ramallah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×