Erlent

Íbúar í Diabaly tóku vel á móti Frökkum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Íbúar bæjarins tóku hermönnunum fagnandi þegar íslamistar höfðu verið hraktir á flótta.
fréttablaðið/aP	fréttablaðið/AP
Íbúar bæjarins tóku hermönnunum fagnandi þegar íslamistar höfðu verið hraktir á flótta. fréttablaðið/aP fréttablaðið/AP
Franskir og malískir hermenn náðu á sitt vald bænum Diabaly, viku eftir að íslamistar hertóku bæinn. Íslamistarnir gáfust upp eftir að franski herinn hafði haldið uppi linnulausum loftárásum dögum saman.

„Við erum sannarlega þakklát Frökkum sem skárust í leikinn á síðustu stundu," segir Gaoussou Kone, 34 ára íbúi í Diabaly. „Án Frakkanna væri ekki aðeins Diabaly fallinn, heldur væri brátt ekkert Malí til lengur. Þetta lið vildi fara alla leið til Bamako."

Bamako er höfuðborg landsins. Hún er í suðausturhlutanum en herskáir íslamistar náðu á síðasta ári norðurhluta landsins á sitt vald. Þeir tóku að sækja lengra suður á bóginn nú eftir áramótin og náðu fyrst á sitt vald bænum Konna og síðan Diabaly. Þeir hafa nú verið hraktir á brott frá báðum þessum bæjum.

Franski herinn hóf loftárásir á íslamista þann 11. janúar. Stjórnarherinn í Malí er ekki búinn til þess að takast á við hersveitir uppreisnarmannanna.

Jean-Yves Le Drian, varnarmálaráðherra Frakka, segir að loftárásirnar hafi valdið umtalsverðu mannfalli í röðum uppreisnarliðsins, en vildi þó ekki segja hve margir hafi látist. Frakkar hafi einungis tekið þátt í minni háttar átökum á jörðu niðri.

Frakkar fara nú fram á það að hersveitir frá Afríkuríkjum taki að mestu að sér hernaðinn gegn íslamistunum í Malí, en reiknar með að nokkrar vikur muni líða þangað til lið Afríkuríkja verði tilbúið til átaka. Á meðan muni franski herinn sinna þessi verki.

Íbúar hins strjálbýla norðurhluta Malí eru að mestu túaregar, sem margir hverjir vilja stofna sjálfstætt ríki eða í það minnsta fá einhverja sjálfstjórn, því stjórnvöld í suðurhluta landsins láti sig örlög þeirra hvort eð er litlu varða.

Íslamistarnir, sem hófu uppreisn í norðurhluta landsins á síðasta ári, voru margir málaliðar hjá Múammar Gaddafi, leiðtoga nágrannaríkisins Líbíu, sem steypt var af stóli og síðan drepinn árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×