Enski boltinn

Poyet ekki sáttur við klefakúkinn

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Poyet er langt frá því að vera sáttur.
Poyet er langt frá því að vera sáttur. Mynd/Nordic Photos/Getty

Enska knattspyrnufélagið Brighton hefur sett í skoðun atvik sem átti sér stað fyrir leik liðsins og Crystal Palace í undanúrslitum umspilsins um sæti í ensku úrvalsdeildinni í vikunni. Starfsmaður Brighton kúkaði á gólfið í búningsherbergi gestanna.

Málið fór af stað þegar Gus Poyet, knattspyrnustjóri Brighton sendi harðorðan tölvupóst á starfsmenn félagins eftir 2-0 tap Brighton gegn Palace á heimavelli sem kostaði liðið sæti í úrslitaleik um sæti í ensku úrvalsdeildinni á Wembley á mánudag.

„Ég er reiður að einhver viðriðinn félagið geti lagt orðspor félagsins í hættu og lagst svona lágt,“ skrifaði Poyet í tölvupósti til starfsmanna félagsins vegna þess að einhver starfsmaður kúkaði bæði á gólf búningsklefans og salernisins í klefa gestanna.

„Bjóst einhver við því að þetta hefði áhrif á leikmenn Crystal Palace? Kannski gerði það það. Það má vera að þetta hafi kveikt enn frekar í þeim.

„Einhver tók mjög vonda ákvörðun og ég held að það sé tími til að viðurkenna brot sitt og axla ábyrgð. Ekki bara sökudólgurinn heldur einnig þeir sem eiga að gæta að öryggi á leikvanginum,“ sagði reiður Poyet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×