Fótbolti

Ancelotti vill fara til Real Madrid

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ancelotti og félagar fögnuðu meistaratitlinum á laugardagskvöldið.
Ancelotti og félagar fögnuðu meistaratitlinum á laugardagskvöldið. Nordicphotos/AFP

Fátt virðist geta komið í veg fyrir að Ítalinn Carlo Ancelotti verði næsti þjálfari Real Madrid.

L'Equipe hefur eftir Leonardo, yfirmanni knattspyrnumála hjá PSG, að Ítalinn hafi óskað eftir því að fá að yfirgefa franska félagið. Hann vilji taka við Real Madrid.

„Carlo óskaði eftir því að fá að fara til Madríd en við viljum halda honum hér. Það var engin ákvörðun tekin en við tókum mark á beiðni Carlo. Nú munum við velta þessu fyrir okkur," sagði Leonardo.

„Það er forgangsatriði hjá okkur að Ancelotti verði hér áfram. Við höfum ekki verið í sambandi við neina aðra," bætti Brasilíumaðurinn við.

Ancelotti stýrði PSG til sigurs í frönsku deildinni í fyrsta skipti frá árinu 1994. Jose Mourinho stýrir Real Madrid og á enn þrjú ár eftir af samningi sínum við félagið. Engu að síður er reiknað fastlega með því að Portúgalinn hverfi á braut. Chelsea er talinn líklegasti áfangastaður Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×