Erlent

Ólöglegt að opna "læsta" farsíma

Nordicphotos/AFP
Farsímanotendur vestanhafs eru að öllum líkindum heldur svekktir með ný lög sem tóku gildi í dag. Nú er ólöglegt að láta opna „læsta" farsíma sína nema með samþykkis símafyrirtækis síns.

Símafyrirtæki í Bandaríkjunum hafa undanfarin ár selt dýra snjallsíma á mun ódýrara verði gegn því að notendur skuldbindi sig hjá fyrirtækinu til lengri tíma. Í samningnum felst mánaðarleg greiðsla sem getur verið til nokkurra ára. Algengur samningstími er tvö ár og að því loknu hafa símanotendur greitt mun hærri upphæð en sem hefði numið að kaupa farsímann án samnings.

Með læsingu er átt við að símann er aðeins hægt að nota innan símkerfis þess símafyrirtækis sem seldi símann. Ekki er hægt að hringja innan annars símkerfis nema leitað sé til þriðja aðila sem getur brotið læsinguna á bak aftur. Bandarískir farsímaeigendur, í áskrift hjá þarlendum símafyrirtækjum, geta því t.d. ekki tengst íslenskum símkerfum á meðan á dvöl þeirra hér á landi stendur.

Fjölmargir símanotendur kaupa sér nýja síma áður en samningstímanum við viðkomandi símafyrirtæki lýkur. Í þeim tilfellum hafa notendur átt þess kost að láta þriðja aðila opna gamla símann og selja hann sjálfir. Nú er það orðið ólöglegt.

Hámarksrefsing við því að láta opna „læstan" síma er 2500 dalir eða um þrjú hundruð þúsund krónur. Ætli einhver að hagnast af því að selja áður læstan síma getur refsingin numið 500 þúsund dölum eða rúmum sextíu milljónum króna auk fangelsisvistar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×